30.10.02
Norðmenn ganga of langt!
Fiskaren krefst afsagnar Árna M. Mathiesen
Norska sjávarútvegsblaðið Fiskaren krefst þess í ritstjórnargrein í dag, að Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra segi af sér ráðherradómi eftir að hann tapaði meiðyrðamáli sem blaðamaður blaðsins, Magnús Þór Hafsteinsson, höfðaði á hendur honum. „Ráðherra sem verður ber að ósannindum um ólögmætt athæfi í íslenskum sjávarútvegi getur ekki setið áfram. Hvaða trúverðugleika hefur ráðherra, bæði heima og erlendis, sem ber á móti skjalfestum lögbrotum?" segir í ritstjórnargrein Fiskaren.
Blaðið hefur eftir Eiríki Tómassyni prófessor að stjórnskipulega séð hafi dómurinn engar afleiðingar í för með sér fyrir ráðherrann. Ennfremur hefur Fiskaren eftir Hjálmari Jónssyni, formanni Blaðamannafélags Íslands, að dómurinn sé sigur fyrir íslenska blaðamennsku. Sagt er frá umfjöllun Fiskaren í Journalisten, fagriti norska blaðamannafélagsins, í dag undir fyrirsögninni: „Sjávarútvegsráðherra fastur í netinu"
Tilvitnun í frétt Morgunblaðsins líkur. Ég veit ekki í hvaða neti Árni ætti að vera fastur, öðru en neti norskra netmiðla. Það er búið að nefna til sögunnar mál sem tengdist Ísafoldar Birni Jónsyni ráðherra og Landsbanka Íslands og annað tengt Ólafi Jóhannessyni framsóknarmanni. Auk þess man ég að ég las um að Ólafur Thors hefði leyst flokksbróður Magnús Guðmundsson sinn af dómsmála ráðherra stóli 14. nóvember 1932 til 23. desember sama ár meðan sá síðarnefndi stóð í málaferlum við Hriflu Jónas fyrrum dómsmálaráðherra.
Ég held að Norðmenn eigi í alvöru talað nóg með sín mál og mér finnst það ekki í þeirra verkahring að skipta sér að hver sé ráðherra í hvaða málaflokki. Íslendingar eru sjálfstæð þjóð.
28.10.02
Ég vil benda öllum á hugsanir og skrif Stefáns Friðriks, nú þegar maður er búinn að skipta yfir á vetrardekkin og klár í veturinn.
Ég tók á móti vetri Konungi að nýstárlegum sið þar sem Sviðum var skipt út fyrir berjalegið Lambalæri, annars á maður og eftir að prófa hið lífrænt ræktaða lambakjöt sem nú er á boðstólum. Reyndar var sviðaveislan viku fyrr en venjulega vegna bráðrar snjókomu. Svo notaði ég fyrsta vetrardaginn líka til snjómoksturs, gatan mín er núna orðin fín. Að loknu sumri lítur maður yfir farinn veg og þá sér maður að þetta sumar var hið ævintýralegasta þar sem hápunktarnir voru að sjálfsögðu, útskrift, Færeyjar og Sjávarútvegssýningin.
Í vikunni sem leið lögðu nokkrir félagar mínir út í óvissuna og ætla þeir að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík ég óska þeim alls hins besta, hins vegar vil ég líka óska frambjóðanda ungra Dalamanna velgengni í prófkjörinu í norðvesturkjördæminu. Skjöldur Orri Skjaldarson er eini ungliðinn sem tekur þátt í hinum "banvæna slag" í norðvesturkjördæminu, vonandi vegnar honum líka vel, og það er óskandi að Dalamenn fái einn góðan í stólinn hans Bjarna frá Vogi
Það var gaman að sjá hvað ósköp lítið getur glatt vesælan, eins og þessi litla þátttaka í póstsendingum samfylkingarmanna virðist gera fyrir Samfylktafólkið. Annars kemst Valdimar Agnar vel að orði eins og svo oft áður.
Þeim í austurvegi tókst að skjóta fólki skelk í bringu ef við veltum fyrir okkur lífi í frjálsu samfélagi og þótti mér þau ummæli í fréttunum í gærkvöldi lýsa fréttaflutningi af þessu upphlaupi mannræningjanna í Moskvu.
21.10.02
Snjór.
Það snjóaði meðan ég fór að orðum Kjartans Ólafssonar og tók slátur. Hinsvegar yrði hann sennilega seint ánægður með hvað við tókum fá slátur, þetta var kannski svona mest til að sýnast.
Það er margt skrítið undir sólinni, Íslendingum þykir ró og kyrrð þægileg til af slöppunar, og sumum finnst þögnin "þokkalega þokkaleg" en ég þekki eina frá Malasíu sem finnst þögnin þrúgandi. Svona er nú það. Annars er alltaf gaman að lesa gott lesefni
14.10.02
Fín Fjarstýring
Nú spyr ég þá sem hafa reynt eitthvað svona; Virkar þessi "fjarstýring" í raun á þennan hátt?
13.10.02
HM í dorgveiði fór fram á Útgerðarfélagsbryggjunni á föstudaginn. Þar voru færri keppendur en mörg undanfarin ár, en þó ríkti hinn skemmtilegi keppnisandi og veiddu sumir meira en aðrir. Svo var það sviðaveisla í gær, forskot tekið á sæluna því eins og menn vita þá hefst veturinn ekki fyrr en eftir tvær vikur tæpar. En veislan hjá Óttari var með afbrigðum góð. Það er gott að fá mat þó það sé ekki nema einstöku sinnum.
Af slappandi áhrif sunnudagsins eru að koma fram, loksins loksins.
10.10.02
Ný og nauðsynleg hugmynd
Kristbjörn stingur upp á raunhæfri leið að lausn eilífðar vandamála með kjördæmi og þverskurð kjósenda á Alþingi. Annars Væri þá nær að hafa þessa kjósenda skiptingu annað hvort þannig að allir þeir sem væru á ákveðnu aldursbili t.d. 18-28, hefðu ákveðinn fjölda af þingmönnum jafn marga og aðrir aldurshópar, eða þá að þessi aldurshópur hefði þann fjölda þing manna sem endurspeglaði hlutfall þeirra í hópi kjósenda.
Hinsvegar birti Baggalútur tímamóta könnun á síðu sinni.
9.10.02
Hugleiðingar um sjónvarpsdagskrá.
Valdi hefur, eins og venjulega skoðun á öllu mögulegu sem ómögulegu, en það er nú bara hann, eins og hann er. Þetta er hinsvegar mjög athyglisverð hugmynd hjá drengnum. Hann má eiga það. Ég tala ekki um ef það væru ekki frystitogarar nútímans heldur væri nær að hugleiða síðutogarana og þá fremur yfir vetrar mánuðina en sumar mánuðina. Svo það væri eitthvað fútt í myndskeiðunum, þegar lægðirnar gengju yfir með tilheyrandi sjógangi.
Ef frystitogari yrði fyrir valinu þá mætti líta framhjá þessum nýjustu sem eru með mestu þægindunum.
8.10.02
Um atvinnuástand á Akureyri
Rangfærslur þær sem birtust í Vikudegi skömmu fyrir mánaðarmótin september/október um vaxandi atvinnuleysi á Akureyri eru lýsandi dæmi um þau óvönduðu vinnubrögð sem einkenna oft skrif blaðsins.
Lítum á nokkrar staðreyndir:
í ágúst var atvinnuleysi á Akureyri um 1,6% en var á sama tíma um 2,2% á landsvísu.
frá miðju ári 1999 fram til áramóta 2001 var atvinnuleysi með lægsta móti frá því að skráning þess hófst.
í lok ágúst 2002 mældist atvinnuleysi á Akureyri hið fjórða minnsta frá ársbyrjun 2001.
á sama tíma og atvinnuleysi hefur aukist í Reykjavík er það á Akureyri komið niður fyrir landsmeðaltal
íbúum fjölgar stöðugt á Akureyri, til að mynda 61 á fyrri helmingi ársins 2002. Aðeins einu sinni á síðustu fimm árum má finna meiri fjölgun á sex mánuðum.
það er frekar skortur en offramboð á fasteignamarkaði á Akureyri
Ég bendi lesendum á grein eftir Benedikt Guðmundsson forstöðumann þróunarsviðs AFE. Hana er að finna á vef Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og ber yfirskriftina, Atvinnuástand á Akureyri.
7.10.02
Amen á eftir efninu
Um nýliðna helgi hélt ég að mestu leiti til á Hótel Héraði á þingi Kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Það var gaman. Hinsvegar vannst mér ekki tími til að ganga um Egilsstaði, ég náði samt að líta inn í söluskálann, en það var eiginlega ekkert meira en svo. Enda varð ég ávíttur fyrir vikið. Kristinn Pétursson bauðst til þess að taka að sér yfirstjórn Hafró, það besta við hans mál var að hann var raunsær í orðum sínum um Einar nokkurn Júlíusson. Hann frábauð sér að það væri nauðsynlegt að láta ritskoða gögn frá Hafró í Kaupmannahöfn áður en þau bærust í hendur ríkisstjórnarinnar.
Geir Haarde talaði um efnahagsmál og skattalækkanir. Sigríður Ingvars talaði um sjávarútvegsmál en á öðrum forsendum en bakkfirðingurinn. forseti Alþingis fjallaði um stjórnmálaviðhorfið og kom þar inn á vegagerð sem stytti leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar um 85 km, sem er nokkuð sem við verðum að gera.
Tómas Ingi talaði um Menningar stofnun sem bæði Danir og Íslendingar gætu staðið að. Egill Jónsson Seljavallagoði minnti á að hann væri heimamaður í Norðausturkjördæmi. Arnbjörg skemmti sér vel ræddi um framkvæmdir tengdar stóriðju og samstarfi sveitarfélaga auk Grettistaki Blöndals og þingmenn okkar ætluðu allir að halda áfram í stjórnmálum.
1.10.02
Blöndagur
Í dag verður Alþingi Íslendinga sett. Að því tilefni vil ég minna á að með sparsemi og nægjusemi næðu Íslendingar aldrei settu marki heldur með bjartsýni stórhug og atorku. Eins og Ólafur okkar Thors komst svo skemmtilega að orði fyrir nokkrum misserum.
|